Skip to content

Gömul mynd endurgerð – 50 ár á milli mynda

  Síðasta vetur (2017) endurgerðum við þessa gömlu mynd sem var tekin á síðustu öld.

  Til vinstri má sjá Hornfirskt ættaðan afkomanda Skugga frá Bjarnanesi, til hægri er Hindisvíkingurinn Glóblesi 700 frá Hindisvík. Knapar eru Sigurður Ámundason og Sjöfn Halldórsdóttir (bændur í Þverholtum, Borgarfirði), sem fengu Glóblesa sem folald í Hindisvík, tömdu hann og sýndu til 1.verðlauna áður en hann fór í Kirkjubæ og þaðan aftur heim í Hindisvík 13 vetra. Nákvæmt ártal myndarinnar liggur ekki fyrir, en Glóblesi er fæddur 1964 og má því álykta að myndin sé tekin í kring um 1970, þar sem hún er tekin áður en hann fór í Kirkjubæ 1971.

  Hér að neðan má sjá myndina endurgerða árið 2017:

  Mynd: Heiða Heiler

  Vinstra megin er Hornfirðingurinn Nökkvi frá Dynjanda og til hægri Hindisvíkingurinn Hetja frá Mið-Kárastöðum. Knapar eru Hanný Norland Heiler og Ástmundur Agnar Norland.

  Líklegast verður þetta í eitt af seinustu skiptum sem tvö hross með slík ættartré koma saman á einni mynd. Hetja er til dæmis hreinræktuð frá Hindisvík aftur til ársins 1880 og er ekkert einasta aðkomuhross í hennar ættartré. Hún er undan Glæsi frá Hindisvík og Hrund frá Hindisvík. Nökkvi er nefndur eftir ættföður sínum, Nökkva frá Hólmi, sem finna má 39 sinnum í hans ættartré.

  Erfitt verður að halda stofninum jafn hreinum í framtíðinni, þar sem vantar hross til að nota á móti. Til dæmis má geta að síðasti hreinræktaði stóðhesturinn af Hindisvíkurstofninum (Glæsir frá Hindisvík) er orðinn 21 vetra. Við ætlum þó að reyna að nota stóðhesta sem eru eins skyldir stofnunum og hægt er og fara svo tilbaka í hreinni línuhross sem við enn eigum.

  Til gamans má geta að Nökkvi hefur Skugga frá Bjarnanesi að minnsta kosti 39 sinnum í sínu ættartré og Hetja hefur Glóblesa 700 sem er á efri myndinni 5 sinnum í ættartrénu.

  Fyrir áhugasama er hægt að lesa sér til um stofnana með því að smella á þá hér að neðan:

  Hindisvíkurstofninn

  Hornfirski stofninn

  Hanný og Nökkvi
  Tobbi og Hetja