Skip to content

Hrossaræktin okkar

  Fyrir utan hjálmskjóttu hrossin okkar er það okkar hjartans mál að viðhalda gömlu línunum , Hornafjörður og Hindisvík eftir bestu getu.

  Tenging okkar er mjög sterk við þessar línur, Tobbi, eða Ástmundur Norland réttu nafni, á ættir sínar að rekja í Hindisvík, þar sem afabróðir hans, séra Sigurður Norland bjó 1885 til 1971 og ræktaði þennan merka stofn, sem hægt er að rekja nánast óblandað til 1873. Eftir að Rauðskjóna frá Ánastöðum kom í Hindisvík árið 1900 hófst skipulega stofnrækt sem aldrei var blönduð öðrum línum.

  Eftir fráfalls séra Sigurðar árið 1971 tóku faðir Tobba, Agnar Norland og föðurbróðir, Sverrir Norland við hrossunum og síðar voru það Tobbi og faðir hans sem héldu áfram skipulagðri stofnrækt í Hindisvík þangað til 1995, og voru með allt að 40 hryssur í ræktun. Eftir það var dregið verulega úr ræktunninni vegna aðstæðna en henni var alltaf haldið við í smáum stíl.

  Mikið af þekktum hrossum eiga ættir sínar að rekja í Hindisvík, má nefna þar Glóblesa 700 frá Hindisvík sem var m.a. notaður í Kirkjubæ og komu úr þeirri blöndu margir þekktir gæðingar, eins og Seifur, Strákur, Sóti, Brana og dóttir hennar Rauðhetta frá Kirkjubæ.

  Eins Huginn frá Hindisvík, Noregsmeistari í tölti og fjórgangi, Muninn frá Hindisvík, Svíðjóðarmeistari í fimmgangi og gæðingaskeiði og fleiri.

  Mikið af hrossunum frá Hindisvík fór til Þýskalands, þar sem nokkir áhugasamir ræktendur eins og Dieter Puetz, Andreas Trappe og fleiri náðu miklum árangri með framræktun þeirra, t.d. var Dieter Puetz kosinn Ræktunarmaður ársins tvisvar sinnum í Þýskalandi. Hlöðvir frá Hindisvík stóð efstur stóðhesta með afkvæmum í Þýskalandi eitt árið.

  Má líka nefna stóðhestana Húna frá Hindisvík og Hrafnfaxa frá Hindsivík í eigu Heinz Pinsdorf, sem reyndust mjög farsælir stóðhestar í Þýskalandi.

  1993 héldu Agnar og Tobbi Norland í samstarfi við Dieter Puetz ræktunarbúsýningu í Roderath, þar sem fram komu um 80 hross af Hindisvíkurættum og vakti hún mikla athygli.

  Tobbi rak einnig Hestamiðstöðin Hindisvík í Mosfellsbæ í um 15 ár.

  Hindisvíkurhross eru oftast fríð og þurrbyggð, með úrvals fótagerð og hófa. Það eru bæði til klárhestar og alhliðahestar og sýna mörg mikinn fótaburð og svifmikið brokk. Þau geta verið mörg sjálfstæð og hörð í byrjun tamningar og ekki allra, þó sum séu einnig sjálftamin. Viljinn er yfirleitt góður og í sumum tilvikum meira en þörf er fyrir.

  Algengt er að fólk sem hefur eignast góðan Hindisvíkurhest leiti aftur í þetta blóð.

  Með því að smella HÉR má lesa meira um núverandi ræktun okkar á Hindisvíkurstofninum.


  Hanný hins vegar á sterkar taugar til hornfirsku hestanna, hún kom sem tamningamaður í Hornafjörðinn 1987, fyrst í Árnanes. Voru þá enn til mikið af hornfirskum gæðingum sem hún kynntist af eigin raun og hefur leitað í alla tíð síðan.

  Hún starfaði við tamningar í Hornafirði í 26 ár, eða til ársins 2013 og bjó frá 1999 á Dynjanda í Nesjum. Hún hefur alltaf haldið í nokkrar hryssur af þessum stofni, sem hún ræktar undan. Sumar þeirra hafa t.d. Nökkva frá Hólmi 260 allt að 40 sinnum í ættartré sínu. Ófeigur 818 frá Hvanneyri og Flosi frá Brunnum koma sterkir inn í hennar ræktun.

  Hross af þessu stofni eru yfirleitt mjög gæf og mannelsk að eðlisfari, en miklir persónleikar og sjálfstæðir. Oftast mjög auðveld í tamningu ef rétt er að þeim farið og þeim gefinn tími. Eykst þá viljinn hægt og bítandi og getur orðið, eins og orðað hefur verið um Blakk frá Árnanesi, “skap og fjör svo mikið, að ekki væri þörf á meiru fyrir kröfuharðan hestamann.”

  Töltið er aðallinn hvað ganginn varðar, úthaldið á gangi og rýmið oft á tíðum ævintýralegt.

  Lýsir Þorkell Bjarnason, fyrrverandi hrossaræktarráðunautur, því best með eftirfarandi setningu:

  “Enginn maður heldur út að ferðast svo lengi, án hvíldar, að hann nálgist það að vera til frásagnar þegar viljinn fjarar út í hornfirskum viljahesti.” (Jódynur 1990)

  Með því að smella HÉR má lesa stutta samantekt um okkar Hornfirðinga.


  Svo er það Heiða, dóttir Hannýjar, sem sér alfarið um heimasíðuna. Henni eru hjálmskjóttu hrossin að kenna. Það var hennar stærsta ósk fyrir fermingagjöf að eignast slíkan hest, sem fannst eftir mikla leit og eftir það var ekki aftur snúið.

  Markmið hjá hjálmskjóttu hrossunum okkar er samt ekki bara liturinn heldur hafa þau góð líka og kemur þar stóðhesturinn okkar, Strákur frá Vatnsleysu, sterkur inn.

  Meira um okkar hjálmskjóttu hross má lesa HÉR.