Á Sæbóli er fremur stórt friðlýst æðarvarp sem telur tæplega 3000 hreiður og nær yfir um 7 hektara svæði.

Æðarfuglinn lifir á norðlægum slóðum og verpir í maí/júní. Hann hefur verið friðlýstur á Íslandi síðan árið 1847.

aedarvarp

 Æðarvarpið á Sæbóli er afmarkað og vel merkt. Það dugir þó ekki alltaf til við að halda forvitnu fólki frá.

Æðardúnn hefur verið nýttur síðan land byggðist á Íslandi og hefur með tímanum þróast einstakt samlífi milli manns og æðarfugls.

Samlífið fer þannig fram að maðurinn verndar varpið og fær þá fuglinn frið frá öllum vargi, s.s. ránfuglum, tófu, minnk, auk umgangi húsdýra og manna. Þetta leiðir af sér að vakta þarf varpið allan sólarhringinn á meðan á varptíma stendur. Auk þess búum við til allskonar mismunandi hreiðurstæði fyrir fuglinn. T.d. úr dekkjum og litlum húsum, sjá frekar á myndum neðar á þessari síðu.

eider1

Dæmi um hreiðurstæði. Þetta hreiður er smíðað af Hanný sem tók líka myndina.

eider15

Dæmi um hreiðurstæði. Hér hefur fuglinn valið að verpa í gömul dekk. Mynd: Stephanie Hentschel

Í apríl, eða um leið og snjórinn minnkar förum við í að hreinsa úr hreiðrunum bæði gamla eggjaskurn og hey og setjum í þau nýtt hey. Gamla eggjaskurnin er látin liggja hjá hreiðrunum til að lokka fuglana að, en þeir koma hvort er oftast aftur í gömlu hreiðrin sín.

Við setjum líka upp fuglahræður og bönd með litríkum klútum og snúrum. Klettarnir í fjörunni og staurarnir verða málaðir í allskonar litum og litríkum hlutum dreift um varpið, t.d. gömlum netakúlum og stangir með litlum fánum. Á varptíma erum við líka með útvarp sem gengur allan sólarhringinn.

Allt ofangreint er gert bæði til þess að fæla burt varg og laða að sama tíma að æðarfugl, sem virðist finna fyrir öryggi í allri þessari litadýrð sem og návist mannsins.

aedarvarp3

Fuglahræðurnar 16.apríl 2014

duntynsla51
Hér sjást vel veifurnar sem við bjuggum til úr efni frá Kidka ullarverksmiðjunni á Hvammstanga (2016)

Seinnipartinn í apríl byrja fyrstu fuglarnir að týnast upp í varpið. Það er stundum eins og pörin rölti saman um varpið og velji sér gott hreiðurstæði. Þegar það er fundið byrja þau að undirbúa hreiðrið. Fyrst er öllu sem á að þeirra mati ekki heima í hreiðrinu ruslað út og því skipt út fyrir æskilegri hluti, s.s. mosa, gras, þang og hey.

Æðarkollan verpir einu eggi á dag, breiðir yfir það og fer aftur í sjóinn þar til næsta egg kemur. Þegar safnast hafa næg egg í hreiðrið leggst hún alveg á (yfirleitt um 4-6 stykki).

Á meðan kollurnar liggja á eggjunum týna þær af sér dúninn og setja í hreiðrið til að vernda eggin gegn kulda.

Blikinn situr hjá kollunni á meðan hún liggur á en yfirgefur hana stuttu áður en ungarnir klekjast og skilur hana eftir með alla vinnuna.

duntynsla58 
Fimm egg sem öll eru byrjuð að klekjast

duntynsla24

Æðarkolla á hreiðri

Um leið og fyrstu kollurnar byrja að liggja á byrjum við að vakta varpið allan sólarhringinn og stendur törnin í um 6 vikur. Eggin eru um 24 daga að klekjast en því miður leggjast ekki allar kollurnar á á sama tíma og því er vöktunartímailið svo langt.

Á meðan við vöktum varpið erum við aðallega að reka burt hrafninn, sem getur valdið miklum skaða í varpinu þar sem hann rekur kollurnar af hreiðrunum, stelur eggjunum og eyðileggur þannig oft allt hreiðrið. Það eru einnig nokkrar mávategundir sem reyna þetta og þarf líka að halda þeim fjarri.

Á nóttinni erum við sérstaklega mikið á ferðinni í kring um varpið til að reyna að minnka líkurnar á því að tófan láti sjá sig. Einnig þarf að varast minnkinn, en sem betur fer er hann frekar sjaldséður á okkar svæði. Eins kemur fyrir að við þurfum að reka burt forvitna ferðamenn.

Það tekur mörg ár að byggja upp æðarvarp, en ef það er vel hugsað um það og fuglinum líður vel, þá kemur hann aftur ár hvert og verður jafnvel aukning í varpinu.

eider9

Í miðju æðarvarpinu. Myndin er tekin í dúntýnslunni. Ljósmyndari er Stephanie Hentschel

Dúnninn er týndur rétt áður en ungarnir klekjast. Þá þurfum við að fara varlega inn í varpið og skríða á milli hreiðra með stóra ullarpoka. Ungu kollurnar fljúga yfirleitt af hreiðrunum, en þær eldri labba skammandi í kring um hreiðrið. Sumar eru svo spakar að það þarf að lyfta þeim af hreiðrunum.

Eggin eru tekin varlega úr hreiðrinu, dúnninn tekinn, búið um hreiðrið með nýju þurru heyi og svo eru eggin lögð aftur í hreiðrið. Kollan kemur nánast strax aftur og leggst á hreiðrið sitt.

eider13

Fyrir: Hreiður með Dún. Ljósmyndari: Stephanie Hentschel

eider14

Eftir: Þarna er búið að týna dúninn og skipta honum út fyrir þurrt hey. Ljósmyndari: Stephanie Hentschel

Dúninn er aðeins hægt að týna í góðu veðri. Það má ekki vera of kalt, eggjanna vegna, og ekki rigning né vindur dúnsins vegna.

Með þessari aðferð fær maður besta og dýrmætasta dúninn og skaðar ekki ungana sem klekjast í þurrt heyið. Um leið og þeir eru orðnir þurrir liggur leiðin niður að sjó þar sem þeir verða strax að læra að leita sér ætis.

Við pössum líka ungana þegar þeir eru komnir í sjóinn þar sem mávarnir myndu annars auðveldlega týna þá, einn á fætur öðrum, upp úr sjónum.

Þegar dúnninn hefur verið týndur er strax breitt úr honum og varlega blásið undir hann til þurrkunar. Þegar hann er orðinn þurr og grófhreinsaður er hann sendur á dúnhreinsunarstöð, þar sem lokahreinsun fer fram.

eider8

Tobbi við þurrkun á Æðardún. Ljósmyndari: Stephanie Hentschel


Hér að neðan má sjá tilbúina dúnsæng frá okkur. Nánar má lesa um sængurnar hér.

saeng2


Myndasafn:

...

Hreiðurstæði:





Dúntekja:

 



Vöktun:  

 



  

Aðrar myndir:

 

 


Myndbönd:

Undirbúningur hreiðurs.
Myndbandið er frá vorinu 2017, en við lentum oft í leiðinlegum veðrum það vorið.

Æðarkolla er að hagræða dún. Mæli með að horfa á það í bestu mögulegu gæðum.

Ungar alveg að klekjast

Ungar alveg að klekjast #2

Æðarkollur á leið til sjávar með ungahóp


 Eftirfarandi myndband er gefið út af Æðarræktarfélagi Íslands: