Þessi grein er enn í vinnslu.

Mikill tími og vinna hafa farið í að safna saman upplýsingum um stofninn, en það er ekki mikið af þeim að finna á netninu og kemur þetta því að langstærstum hluta frá hjálpsömu fólki og gömlum bókum. Ef þú átt myndir, kannt sögur eða hefur einhverjar aðrar upplýsingar um stofninn eða einstaklinga hans hefðum við mjög gaman að heyra í þér.

hindisvikur

Stofnrækt í Hindisvík hófst um 1880 með formóður stofnsins, Rauðskjónu 394 frá Ánastöðum á Vatnsnesi, en hún var lengi reiðhross Jóhannesar Sigurðssonar, þáverandi bónda í Hindisvík. Þegar sonur hans, Séra Sigurður Norland, tók við búskapnum jókst hrossaræktin til muna og varð til einn þekktasti reiðhestastofn landsins.

Eftir fráfall séra Sigurðar árið 1971 tóku faðir Tobba, Agnar Norland og föðurbróðir, Sverrir Norland við hrossunum og síðar voru það Tobbi og faðir hans sem héldu áfram skipulagðri stofnrækt í Hindisvík þangað til 1995 og voru með allt að 40 hryssur í ræktun. Eftir það var dregið verulega úr ræktuninni vegna aðstæðna en henni var alltaf haldið við í smáum stíl.

Mikið af hrossunum frá Hindisvík fóru til Þýskalands, þar sem nokkrir áhugasamir ræktendur eins og Dieter Puetz, Andreas Trappe og fleiri náðu miklum árangri með framræktun þeirra, t.d. var Dieter Puetz kosinn Ræktunarmaður ársins tvisvar sinnum í Þýskalandi og stóðhesturinn Hlöðvir frá Hindisvík stóð efstur stóðhesta með afkvæmum sínum í Þýskalandi eitt árið.

Má líka nefna stóðhestana Húna og Hrafnfaxa frá Hindisvík í eigu Heinz Pinsdorf, sem reyndust mjög farsælir stóðhestar í Þýskalandi.

Árið 1993 héldu Agnar og Tobbi í samstarfi við Dieter Puetz ræktunarbúsýningu í Roderath, þar sem fram komu um 80 hross af Hindisvíkurættum og vakti hún mikla athygli.

Öll Hindisvíkurhross eru afkomendur Rauðskjónu 394 og hélst þessi skipulagða stofnrækt út af henni óblönduð í meira en 100 ár. Lega bæjarins hjálpaði til við að halda stofninum hreinum þar sem hann er alveg yst á Vatnsnesinu.

Hindisvíkurhross eru oftast fríð og þurrbyggð, með úrvals fótagerð og hófa. Það eru bæði til klárhestar og alhliðahestar og sýna mörg mikinn fótaburð og svifmikið brokk. Þau geta verið mörg sjálfstæð og hörð í byrjun tamningar og ekki allra, þó sum séu einnig sjálftamin.

Viljinn er yfirleitt góður og í sumum tilvikum meiri en þörf er fyrir.

Algengt er að fólk sem hefur eignast góðan Hindisvíkurhest leiti aftur í þetta blóð.

Nokkrar umsagnir um Hindisvíkurstofninn:

,,Einkenni stofnsins hafa verið fín, þétt bygging, fríðleiki, léttleiki og mikil þol að fengnum þroska. Fjörið er oft mikið og hart. Hrossin eru viðkvæm og greind og þola illa harkalega tamningu." (Hestar í Norðri 1992)

"Ennþá er þetta arfsterkasti stofninn í Húnavatnssýslum, og enn er hinn hálfvillti stofn séra Sigurðar í Hindisvík á sínum stað, yzt á Vatnsnesinu, búinn fegurð og kostum, og er því líkast að stofninn bíði eftir starfi og vitsmunum Húnvetninga til að rækta þessa kosti fram og skapa honum aftur forna frægð." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Stofnar þessa kyns eru mjög gamlir, frá föður og afa séra Sigurðar. Hrossakyn þetta hefur mjög lítið orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum, en tímgast fram heima fyrir af miklum skyldleika. Af því leiðir, að stóð þetta er innbyrðis mjög líkt að útliti. Það er yfirleitt einlitt, mest ber á rauða litnum, margt með stjörnu í enni og tvístjörnótt, með ljóst fax og tagl. Stærð og vaxtarþroski nokkuð breytilegt. Það er frekar grannbyggt, reist og létt í hreyfingum, með lítið hallandi lend, vel upp borna og taglið vel borið. Höfuð frítt og svipurinn bjartur og glaður. Mest ber á klárganginum, þó er allmargt af því skeið- eða töltgengt. Margir frískir og viljagóðir hestar hafa borizt um landið af þessu kyni, auk þess nokkrir fjörháir góðhestar." (Ásgeir Jónsson frá Gottorp)

"Sérkenni ættarinnar eru einkum fín, þétt bygging, léttar hreyfingar og mikið þol að fengnum þroska, seintekið fjör en að sama skapi öruggt og gott þegar það er fengið. Mér þykir hún bezta hrossaættin í Húnavatnssýslu og verði einhver ættarstuðullinn þar svo heppinn að fá gott fóstur, þá skal það sannast að þessum hrossum er eðlilegur mikil vöxtur og þá þykja þau héraðsprýði". (Theódór Arnbjörnsson, 1924)


 

Helstu ræktunargripir og einstaklingar

 

Rauðskjóna 394 er ættmóðir Hindisvíkurættar. Hún var sögð hörð og fríð.

"Var sögð mjög hörð, en fríð og léttvíg stóðhryssa. Fengin að Hindisvík frá Jósep Stefánssyni á Ánastöðum á Vatsnesi, en hann átti annálaðan reiðhestastofn, rauðskjóttan á síðustu áratugum 19.aldar, 1880-1900." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Hún var fengin frá Jósep Stefássyni á Ánastöðum á Vatnsnesi, en hann átti annálaðan reiðhestastofn, þolmikil og hörð en mjúkgeng klárhross með tölti. Öll afkvæmi Rauðskjónu voru sett á og stofninum fjölgaði ekki verulega í Hindisvík fyrr en með tilkomu hennar og niðja hennar. " (Gunnar Bjarnason, Ættbók og Saga)


 

Stjarni 118 frá Hindisvík (f. 1917) er komin á þrjá mismunandi vegu frá Rauðskjónu 394. Hann var sýndur til 1.verðlauna árið 1928.

Honum var lýst svo: Fríður, mjög fjörlegur, fínbyggður, reistur, réttur, vel settir fætur og réttir. Byggingin þurr og létt, hreyfingar mjúkar og fjaðurmagnaðar.

  "Stjarni er stofnfaðir hins svo nefnda Hindisvíkurstofns, sem er kynfastur og heldur einkennum sínum, en þau eru þessi helst: Fínt, stælt og þurrt sköpulag. Fíngert höfuð með skörpum og hörðum svip, sjálfráðum og oft óbilgjörnum. Fínn og reistur háls með góðum bóglínum, góð hlutföll og stuttur bolur, stundum stífur sem á arabískum hestum. Þurrir og vel gerðir fætur. Hreyfingar eru fremur einhæfar í seinni tíð, stílhreint brokk er orðið ríkjandi og úr því fæst oft hátt og stílfagurt brokktölt. Lundin er að jafnaði köld, og lundgallar eru nokkuð tíðir. Út af Stjarna hafa komið margir áberandi fagrir reiðhestar, sem búa þó oft yfir meiri fegurð en gæðum, flestir eru klárhestar með góðu tölti." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

Margir stóðhestar komu undan Stjarna 118 og voru þeir notaðir víða um landið. Meðal þeirra má nefna Sörla 141 (sjá neðar) og Roða 187 frá Bjargi. Sagt var um Roða; "Hann er með fegurstu hestum. Sagt er, að öll hans afkvæmi sé til einhvers nýt. Þau eru fríð, og vel vaxin og hafa góða lund." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

hindisvikur stjarniStjarni 118


Sörli 141 frá Dalkoti (f.1926) var undan Stjarna 118 og Yngri-Gribbu frá Hindisvík, sem var bæði sonar- og dóttur-dóttir Rauðskjónu 394. Sörli var fyrst notaður heima í Hindisvík, en árið 1930 var hann kominn í eigu Ámunda Jónssonar í Dalkoti á Vatnsnesi. Árið 1932 var hann síðan seldur Hrossaræktarfélagi Bræðratungusóknar í Biskupstungum. Þar var Sörli notaður til ársins 1943. Þar næst er hann eitt ár í Mýrdal og þaðan fór hann til Valdemars Jónssonar í Álfhólum sem notaði hann til 1950.

  "Sörli gefur fríð, vel byggð og væn hross með ágætri lund og liprum vilja, frekjulausum. Hann hefur óvenjumikla kynfestu. Ríkjandi gangur er hreint og gott tölt." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Hann kvað hann góðan vera, sagðist nota hann sem reiðhest, og þegar hann riði heim góðglaður frá réttum eða veizlum, flygi Sörli með sig yfir alla brúsapalla og kæmi hvergi við".


Húni 158 frá Hindisvík (f. 1930) var undan Stjarna 118 og Sneglu frá Hindisvík, Stjarnadóttur. Hann var rauður, mjög fríður, fjörlegur, reistur, réttur, ágætar herðar, bak og lend, vel settir fætur og réttir.

Húni var seldur þriggja vetra Hrossaræktarfélagi A-Landeyja í Rangárvallasýslu og notaður þar lengi.

Húni hlaut 1.verðlaun árið 1937. Þá var sagt um hann að hann hefði "prýðilega reiðhestbyggingu".

Húni hlaut 2.verðlaun fyrir afkvæmi árið 1940. Umsögn um þau hljóðar svo:

Húni gaf fríð og sviphörð, vel sköpuð, reist og hlutfallagóð hross. Þau höfðu að mörgu leyti góða reiðhesthæfileika, aðallega klárhross með tölti, þó ekki auðtamin til gangsins, en höfðu góða fótlyftingu og glæsileik. Þau voru harðlynd og sérráð og tömdust seint, sum voru með hrekkjaeðli.

"Húni frá Hindisvík nr, 158, sem notaður var lengi í Austur-Landeyjum, gaf fríð og spengileg hross, vel reist og hlaupaleg. Þau eru yfirleitt brokkgeng, skaphörð og jafnvel skapill og erfið í tamningu. Góðum tamningamönnum hefur þó tekist að gera snillinga úr afkvæmum Húna. Sonur hans, Logi 254 í Dalsseli, hefir þó afbragðs góða lund, enda svo göfugan höfuðsvip að fágætt er. Logi er góður reiðhestur og töltir fallega. Frægastur er hann þó fyrir geðslag sitt og vitsmuni. Hann er fremur smár, ber lítinn skörungsskap, en þeim mun meiri fríðleika." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Harðskyldleikaræktaður sem Húni var gaf hann samstæðan afkvæmahóp, Þetta voru glæsihross, viljugir klárhestar, margir með tölti; harðgerðir, nokkuð ósvífnir og erfiðir í tamningu." (Gunnar Bjarnason, Ættbók og Saga)


Glóblesi 700 frá Hindisvík (f. 1964) er undan Glóa og Rauðstjörnu frá Hindisvík. Hann var sýndur á Þingvöllum 1970 og fékk þá 1.verðlaun:

Sköpulag: 8,00

Hæfileikar: 8,01

Aðaleinkun: 8,01

Hann var sýndur með afkvæmum á Landsmóti á Vindheimamelum 1982, þá í eigu Agnars Norland, og fékk 1.verðlaun.

"Afkvæmi Glóblesa 700 eru grannvaxin og fíngerð. Höfuð er skarpt, með heldur opin eyru, svipurinn harður, jafnvel kaldur. Háls er grannur, en ekki nógu reistur úr herðum. Bak beint, lend grönn, bolur léttur. Fætur liprir, sæmilega réttir, hófar fremur grunnir. Þau eru viðkvæm í lund, viljinn mikill og þau fylgja sér vel eftir á öllum gangi og þrífa mikið skeið.

Glóblesi 700 gefur fínbyggð, viljug en kaldlynd ganghross og hlýtur 1.verðlaun fyrr afkvæmi, einkun 7,92."

Glóblesi var meðal annars notaður í Kirkjubæ og komu úr þeirri blöndu margir þekktir gæðingar eins og til dæmis Seifur, Sóti og dóttursonur hans, Strákur, en þessir þrír hestar komust allir í úrslit á Evrópumótum.

"Glóblesi var fyrst notaður í Þverholtum, svo á Kirkjubæ á Rangárvöllum og nú heima í Hindisvík, þar sem hann fæddist. Seifur frá Kirkjubæ, hesturinn, sem hvað mesta athygli vakti á EM-mótinu í Larvík í Noregi 1981, er sonur Glóblesa 700 frá Hindisvík." (Gunnar Bjarnason, ráðunautur)

"Það sem einkenndi þessi hross var viðkvæmni en geysilegur næmleiki gagnvart tamningu. Það var alltaf mjög mikið fjaðrafok í kring um trippin en um leið og maður lagði hönd á þau urðu þau lambþæg. Ég tel að Sigurður í Kirkjubæ hefði mátt gera tilraun með Glóblesa og kanski 3-4 merar og haldið þeim þá sér. Sem reiðmaður og sýnigarmaður þá hefði mér fundist spennandi að fá fleiri hross af þessari blöndu, þaðan komu snillingar." (Sigurbjörn Bárðarson)

hindisvikur globlesi

hindisvikur globlesi1

Glóblesi frá Hindisvík er hægra megin á myndinni, knapi er Sjöfn Halldórsdóttir. Vinstra megin er afkomandi Skugga frá Bjarnanesi, knapi er Sigurður Ámundason.

hindisvikur globlesi2

Glóblesi 700 frá Hindisvík, knapi er Halldór Sigurðsson

h98 1

Glóblesi 700 árið 1988, myndin er eftir Brigitte Englisch og má sjá fleiri myndir af honum hér

Hér að neðan má sjá nokkur þekkt afkvæmi Glóblesa 700:

hindisvikur seifur

Seifur frá Kirkjubæ og Unn Kroghen

Seifur frá Kirkjubæ, Glóblesasonur. Hann vakti mikla athygli þegar hann varð annar í tölti og fjórgangi á EM 1981 í Larvík í Noregi. Knapi er Unn Kroghen.

"Seifur er stór og glæsilegur hestur, að vísu klárhestur en býr yfir miklu rými á tölti, hefur háan fótaburð og er mjög fallegur í reið." (Hjalti Jón Sveinsson, Hrossin frá Kirkjubæ)


hindisvikur soti  Sóti frá Kirkjubæ, Glóblesasonur og Sigurbjörn Bárðarson.

Sóti var sýndur með föður sínum, Glóblesa, á landsmótinu 1982 þar sem hann hlaut 8,50 fyrir hæfileika.

"Þetta var gífurlegur höfðingi og mikill snillingur, maður naut þess að vera með hann og ríða honum." (Sigurbjörn Bárðarson)


hindisvikur huginn

Huginn frá Hindisvík (f.1981), Glóblesasonur. Knapi á þessum myndum er Tobbi í Hindisvík.

Huginn varð seinna Noregsmeistari í tölti og fjórgangi.


hindisvikur brana fra kirkjubae

Glóblesadóttirin Brana frá Kirkjubæ. Hún hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og er kannski þekktust fyrir að vera móðir Rauðhettu frá Kirkjubæ. Brana hlaut sjálf 8,06 í aðaleinkun.

"Afkvæmi Brönu 4721 eru fremur stór, mjög fríð og hálsinn grannur og klipinn í kverk, yfirlínan falleg. Afkvæmin eru léttbyggð og hlutfallarétt, fætur og réttleiki þokkalegur en hófar fremur veikir. Afkvæmin eru fjölhæf og hreingeng sér í lagi er töltið og brokkið gott, viljinn góður og lundin vakandi en nokkuð ör. Góður fótaburður og frjálsleg framganga en framstæður höfuðburður lýtir. Brana gefur fremur stór, mjög fríð og léttbyggð reiðhross."

Þess má geta að Brennir frá Kirkjubæ, sonur Brönu, var notaður sem stóðhestur og komu undan honum nokkur góð hross. Þar á meðal Ísold frá Gunnarsholti sem hefur hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og er meðal annars móðir Garra frá Reykjavík sem hlaut 9,05 fyrir hæfileika.


hindisvikur raudhetta fra kirkjubae

Rauðhetta frá Kirkjubæ og Þórður Þorgeirsson

Rauðhetta frá Kirkjubæ var undan Glóblesadótturinni Brönu frá Kirkjubæ. Rauðhetta var um árabil hæst dæmda kynbótahross á Íslandi en hún hlaut 8,81 í aðaleinkun og þar af 9,23 fyrir hæfileika. 10 fyrir tölt og 9,5 fyrir skeið.


Rauðhetta frá Kirkjubæ á Landsmóti 1994


hindisvikur leista fra kirkjubae

Leista frá Kirkjubæ og Þórður Þorgeirsson

Leista frá Kirkjubæ var undan Glóblesadótturinni Buslu frá Kirkjubæ. Hún var tamin og sýnd 4 vetra gömul af Þórði Þorgeirssyni og varð í fremstu röð á LM 1994 og aftur á FM 1996. Hefur skilað hópi af úrvalshrossum, gefur mikinn fríðleika og gæðingslund. Leista hlaut hæst 8,27 í aðaleinkun. Þar af 8,03 fyrir sköpulag og 8,51 fyrir hæfileika.


Hrafnfaxi frá Hindisvík (f. 1985) er undan Glóblesa og Brúnstjörnu frá Hindisvík. Hann var vinsæll stóðhestur í Þýskalandi og gaf falleg og léttstíg hross.

hrafnfaxi1

Hrafnfaxi árið 2012, þá 27 vetra gamall

Meðal afkvæma Hrafnfaxa má nefna:

  • Hrafnar frá Hindisvík (4.sæti í úrslitum í ungmennaflokki á LM2002 með 8,60, Íslandsmeistari í unglingaflokki ásamt að hafa verið í úrslitum á Landsmóti aðeins 6 vetra gamall)
  • Elskamin frá ? (8,10 fyrir hæfileika)
  • Heljar frá Hindisvík (f. 1989) er albróðir Hrafnfaxa, undan Glóblesa og Brúnstjörnu. Hann var seldur til Þýskalands og hefur þar verið farsæll keppnishestur og stóðhestur þar.
    Heljar ásamt knapa sínum og eiganda, Caroline Fuchs, unnu meðal annars þrisvar gull á þýska meistaramótinu í mismunandi greinum. Hans aðall var töltið og fékk hann m.a. 8 í einkun í slaktaumatölti.

 hindisvikur heljarHeljar og Caroline að keppa á Þýska Meistaramótinu 2003, þar sem þau hlutu fyrsta sæti í slaktaumatölti.


 

Hlöðvir frá Hindisvík (f. 1985) er undan Ófeig frá Hindisvík og Ör frá Hindisvík. Hann var jarpur alhliðahestur með háa fótlyftu og gríðarlegt rými.

Hlöðvir fór utan til Þýskalands, árið 1993. Eigendur þar voru Andreas Trappe og Dieter Puetz.

Hann hlaut 1.verðalaun fyrir afkvæmi í Þýskalandi og stóð efstur yfir stóðhesta með afkvæmum það árið.

hindisvikur hlodvirHlöðvir frá Hindisvík. Knapi: Ástmundur Norland (Tobbi í Hindisvík).

hindisvikur hlodvir1Hlöðvir að fá afkvæmaverðlaun, Andreas Trappe stendur við hestinn og knapi er Reynir Aðalsteinsson.

Meðal afkvæma Hlöðvis má nefna:

  • Elding vom Waldhof (sköpulag: 8,11, hæfileikar 8,45 og aðaleinkun 8,31)
  • Leo vom Waldhof (8,18 fyrir hæfileika, þar á meðal 9 fyrir vilja og 8,67 fyrir tölt)
  • Litur vom Waldhof (8,36 fyrir hæfileika sem klárhestur. Hlaut m.a. um og yfir 9 fyrir tölt, brokk, stökk og fegurð í reið. Drapst því miður fyrir aldur fram)
  • Léttir vom Waldhof (8,06 fyrir hæfileika, 8,04 í aðaleinkun. 8,5 fyrir tölt, og brokk)
  • Alvar von Steenhaar (8,04 í aðaleinkun)

hindisvikur elding waldhof1Elding vom Waldhof er Hlöðvisdóttir með 8,31 í aðaleinkun, þar af 8,45 fyrir hæfileika. Knapi á myndinni til hægri er Michelle van Blitterswijk og ljósmyndarinn er Henk Peterse.

hindisvikur litur waldhof
Litur vom Waldhof. Hlöðvissonur sem hlaut 8,36 fyrir hæfileika sem klárhestur. Þar á meðal 9 fyrir tölt, brokk, stökk og fegurð í reið. Litur féll því miður frá ungur að aldri.

Muninn frá Hindisvík (f.1987). Varð svíþjóðarmeistari í fimmgangi og gæðingaskeiði. Muninn er sammæðra Hlöðvi, undan Ör frá Hindisvík.

hindisvikur muninnMuninn frá Hindisvík, knapi er Denni Hauks.


 

Hross útaf Hindisvíkingum í nútíma

Hindisvíkurhross má finna á bak við marga af gæðingum nútímans og er misjafnt hve langt aftur þarf að fara til að finna Hindisvíkurblóð. Flest Hindisvíkur hrossin hafa þó verið flutt út og má erlendis finna töluvert af meira af Hindisvíkurblóði styttra aftur en hér á landi, þar sem það er frekar aftar í ættartrénu.

Hér að neðan má sjá nokkur hross sem eiga ættir að rekja til Hindisvíkur.

hindisvikur hnata habae
Hnáta frá Hábæ er undan Hlöðvisdóttir frá Hindisvík. Klárhryssa með 8,41 fyrir hæfileika þar af 9 fyrir tölt og 9,5 fyrir brokk. 
Sonur hennar Hnokki frá Eylandi hefur fengið háan kynbótadóm sem klárhestur og staðið sig vel á keppnisvellinum.

hindisvikur elding waldhof1
Elding vom Waldhof. Undan Hlöðvi frá Hindisvík. Alhliðahryssa með hæfileikaeinkunn upp á 8,45, þar af 9 fyrir brokk. Knapi á mynd er Michelle van Blitterswijk.

hindisvikur geisa reykjavikGeisa frá Reykjavík undan Kolu frá Hindisvík. Geisa hefur verið að gera það gott í keppni erlendis, þá helst í skeiðgreinum og tók hún meðal annars þátt í HM2011.


 

Síðasti hreinræktaði stóðhesturinn

Glæsir frá Hindisvík er síðasti stóðhesturinn sem er hreinræktaður af gamla Hindisvíkurkyninu. Má með nokkurri vissu ætla að hann sé einnig einsdæmi um stóðhest með svo langa stofnræktun á bak við sig, en það er enginn aðkomuhestur í ættartrénu hans og allir forfeður frá Hindisvík alveg aftur til 19.aldar (um 1880). Þetta gerir hann að sjálfsögðu mjög óskyldan flestum núlifandi hrossum á Íslandi.

Glæsir er dökkrauður, blesóttur með leist á afturfæti. Hann er fæddur árið 1996.

Tobbi seldi móður Glæsis þegar hún var fylfull og fæddist Glæsir sumarið eftir. Kaupandinn og eigandi Glæsis alla tíð er Loftur á Ásbjarnarstöðum.

Glæsir var aðeins taminn sjálfur og vakti mikla athygli fyrir óvenjulegar hreyfingar.

glaesir

Glæsir 19 vetra gamall í hryssum.

Hér að neðan má sjá nokkur afkvæmi Glæsis.

hrannar13huni10elrond6

frokk8fjodur4hrannar14

elrond3huni2hroi12

hetja17-18huni5fjodur
hetja11huni12hrannar-april2 
fjodur1     
hetja17-15


Okkar Hindisvíkur-ræktun

Því miður er mjög lítið eftir af hreinræktuðum Hindisvíkurhrossum. Við erum að reyna að viðhalda línunum eftir bestu getu og kemur stóðhesturinn Glæsir frá Hindisvík sterkur inn í okkar ræktun. Einnig má finna mikið af Hlöðvi og Glóblesa 700 í ættartré okkar Hindisvíkinga.

Til að lesa meira um okkar ræktun og núverandi ræktunargripi smellið hér.

fjodurFjöður frá Hindisvík, ung hryssa fædd 2014 sem við bindum miklar vonir við. Hún er 75% hreinræktaður Hindisvíkingur. Undan Glæsi frá Hindisvík og Frá frá Hindisvík.


Þessi grein er enn í vinnslu.

Mikill tími og vinna hafa farið í að safna saman upplýsingum um stofninn, en það er ekki mikið af þeim að finna á netninu og kemur þetta því að langstærstum hluta frá hjálpsömu fólki og gömlum bókum. Ef þú átt myndir, kannt sögur eða hefur einhverjar aðrar upplýsingar um stofninn eða einstaklinga hans hefðum við mjög gaman að heyra í þér.