Skip to content

Okkar hjálmskjóttu hross

  Hjálmskjótta ræktunin okkar er mjög smá í sniðum og leggjum við sérstaklega áherslu á hæfileika hrossanna. Hér að neðan má lesa um hvernig þetta hófst hjá okkur, hvaða gripir hafa fæðst og hver staðan er í dag.

  Þeir sem vita ekki hvað hjálmskjótt er geta fræðst um það hér.


  Upphafið

  Ekki er hægt að skrifa texta um okkar hjálmskjóttu ræktun nema að byrja á því að minnast á Ómar Runólfsson en við vorum svo heppin að hann lét til leiðast að láta okkur hafa fyrsta hjálmskjótta hrossið okkar, þegar Hanný vantaði fermingargjöf fyrir Heiðu (árið 2005). Var það hinn bleikhjálmskjótti Tengill frá Laugabóli. Fleiri hross frá Ómari fylgdu í kjölfarið og hefur það samstarf reynst okkur gríðarlega vel.

  Tengill frá Laugabóli

  Næst í hópinn kom Birta frá Smyrlabjörgum, en hún kom upprunalega til okkar í frumtamningu og við vorum svo heilluð af henni að Heiða keypti hana. Birta er bleikskjótt, hringeygð (og kom reyndar seinna í ljós að hún er arfhrein á skjótta litinn), en hún ber í sér hjálmskjótt gen sem hún fékk frá móður sinni Díönu, sem er undan Þokka frá Bjarnanesi (albróðir Snældu frá Bjarnanesi sem er m.a. móðir Klerks frá Bjarnanesi og fleiri. Þokki sjálfur hlaut á sínum tíma 8,28 í aðaleinkun, þar af 8,46 fyrir hæfileika sem klárhestur með 9,5 fyrir tölt og brokk og 9 fyrir stökk og fegurð í reið), en Þokki var einnig genberi.

  Birta frá Smyrlabjörgum

  Birtu var síðan haldið undir Tengil og ári síðar fæddist fyrsta hjálmskjótta folaldið úr okkar ræktun, hann Álfur frá Dynjanda. Þar sem Álfur var bæði hjálmskjóttur og venjulega skjóttur var hann mjög mikið hvítur og aðeins einn rauður blettur í taglinu á honum.

  Álfur frá Dynjanda

  Gríma, ein af okkar aðal hjálmskjóttu ræktunarhryssum kom til okkar sem folald með Tengli, en þau eru undan sama hesti. Hún átti að vera hjá okkur í uppeldi og frumtamningu en fór svo að við eignuðumst hana fyrst að helmingi til og síðar alla. Gríma var mjög auðtamin, með áberandi fótaburð og allan gang.

  Gríma frá Laugabóli

  Frá Ómari kom einnig hann Skrámur frá Hurðarbaki, jarphjálmskjóttur geldingur á besta aldri. Skrámur reyndist vera með betri hestum og kepptum við talsvert á honum með mjög góðum árangri. Hann vakti mikla athygli og seldist að lokum til Sviss, þar sem hann hefur líka verið farsæll á keppnisbrautinni. Við áttum undan honum hryssuna Skrámu, sem eignaðist nokkur afkvæmi með Strák frá Vatnsleysu áður en hún var seld.

  Skrámur frá Hurðarbaki

  Strákur frá Vatnsleysu hefur haft gríðarlega mikil áhrif á okkar hjálmskjóttu hrossarækt, en við vorum svo heppin að geta fest kaup á honum þegar hann var 3 vetra og áttum hann til 12 vetra aldurs. Hann var alltaf í mjög miklu uppáhaldi á heimilinu, enda algjör snillingur að svo mörgu leyti. Við eigum sem betur fer góðar dætur til undan honum. Eftir að Strákur kom til sögunnar á sínum tíma jukust umsvif hjálmskjóttu ræktunarinnar talsvert.

  Strákur frá Vatnsleysu

  Staðan í dag

  Hryssur

  Grímu frá Laugabóli 2 var búið að minnast á hér fyrir ofan. Hún hefur verið í folaldseign hjá okkur til margra ára og reynst mjög vel. Yndislegt hross í alla staði.


  Glenna frá Flugumýri er bleikhjálmskjótt hryssa sem bættist í hópinn okkar veturinn 2016. Þá á sjöunda vetur og lítið tamin. Við tömdum hana áfram í nokkrar vikur og settum hana svo beint í folaldseign um sumarið. Örviljug og skemmtileg alhliðahryssa með frábært tölt.

  Glenna frá Flugumýri

  Auðbjörg frá Vatnsleysu er úr síðasta árganginum undan Glampa frá Vatnsleysu og hefur erft hjálmskjótta genið frá honum. Hún er sammæðra bæði Alvör og Öddu og er alsystir Abels frá Vatnsleysu sem hlaut m.a. 9 fyrir tölt, stökk, vilja og geðslag og 8,5 fyrir brokk og fegurð í reið. Auðbjörg hefur í sér töluvert Hornfirskt blóð.


  Flauta frá Vatnsleysu er fædd 2012 og undan Sindra frá Vatnsleysu Glampasyni og hefur erft hjálmskjótta genið frá honum. Hún er myndarleg, örviljug og skrefstór alhliðahryssa sem er af gamla stofninum á Vatnsleysu og hefur talsvert af Hornfirsku blóði á bak við sig.

  Flauta frá Vatnsleysu

  Þrenna er jarphjálmskjótt hryssa, fædd 2017. Foreldrar hennar eru Strákur og Glenna.

  Þrenna er reiðfær. Hún sýndi bæði tölt og brokk undir knapa með flottum hreyfingum og er viljug.


  Unghross í uppvexti

  Sprengja er rauðhjálmskjótt hryssa fædd 2019. Hún er vel þroskuð og sýnir bæði tölt og brokk með fallegum hreyfingum.

  Faðir hennar er Strákur frá Vatnsleysu. Móðir hennar er Síðasta-Öld frá Melaleiti sem er undan Glámi frá Hofsósi og Veru frá Kópavogi (8,04)


  Vanda er jarphjálmskjótt hryssa fædd 2021.
  F: Fönix frá Flugumýri
  M: Gríma frá Laugabóli 2